Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vaxandi bjartsýni 
og góður gangur
Sighvatur Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka í Reykjanesbæ.
Föstudagur 12. nóvember 2021 kl. 06:39

Vaxandi bjartsýni 
og góður gangur

– segir Sighvatur Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka. Fyrirtæki á Suðurnesjum koma vel undan heimsfaraldri.

„Langflest fyrirtæki sem stóðu sæmilega fyrir heimsfaraldur hafa lifað hann af og eru að komast út úr því ástandi. Eru að koma hratt til baka,“ segir Sighvatur Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka í Reykjanesbæ, en bankinn stóð fyrir morgunverðarfundi í Hljómahöllinni í síðustu viku þar sem farið var yfir stöðuna í efnahagslífinu og horfur framundan.

„Við upplifum vaxandi bjartsýni og efnahagslífið hefur verið á uppleið síðustu vikur og mánuði. Á Suðurnesjum eru mjög mörg fyrirtæki og aðilar í ferðaþjónustu eða tengd henni og þess vegna höfum við upplifað mikið atvinnuleysi á svæðinu þar sem ferðamannageirinn fór á hliðina í faraldrinum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru mjög góðar og hafa haft mikið að segja í því að halda fyrirtækjum á floti yfir erfiðasta tímann í Covid-19. Mörg fyrirtæki náðu að halda stórum hluta starfsfólks þó svo það hafi þurft að minnka starfshlutfall um tíma og þannig haldið þekkingunni inni hjá sér. Þar af leiðandi voru þau fljót í gang þegar ástandið fór batnandi,“ segir Sighvatur. Þá jukust vanskil hjá einstaklingum ekki mikið þrátt fyrir mikið atvinnuleysi. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Líflegt á fasteignamarkaði

Fasteignamarkaður á Suðurnesjum hefur verið líflegur og gríðar mikil sala og samhliða hefur verið mikil ásókn í íbúðalán hjá Íslandsbanka. 

„Það hefur verið mikil aukning í fasteignasölu á undanförnum árum enda hefur hvergi á landinu verið jafn mikil íbúafjölgun og í Reykjanesbæ og Suðurnesjum. Lágir vextir hafa líka verið hvetjandi en hækkun vaxta að undanförnu eiga reyndar að hafa áhrif í hina áttina. Minnka aðeins þenslu sem hefur verið mikil.“

Nú kom fram á fundinum hjá ykkur að það hafi ekki verið eins mikil hækkun á fasteignaverði á Suðurnesjum í sambanburði við Selfoss og Akranes.

„Já, það kom reyndar skýring því en Suðurnesin eru fjögur nokkuð ólík sveitarfélög þannig að eftirspurnin er misjöfn þó hún sé mikil alls staðar. Þá eru líka íbúðahverfi í stærsta sveitarfélaginu, Reykjanesbæ, misjöfn. Fasteignaverð á Ásbrú er til dæmis nokkuð lægra og dregur þannig niður meðaltalið. Markaðurinn er afmarkaðri á Akranesi og á Selfossi – en svo eru sumir á því að fasteignamarkaðurinn á Suðurnesjum eigi inni meiri hækkun. Íbúafjölgun hefur haldið áfram og lítið lát þar á.“

Stafræn þróun á fleygiferð

Sighvatur segir að það hafi mikið breyst og áunnist í stafrænni þróun á tíma heimsfaraldurs. 

„Okkur var hent út í djúpu laugina í upphafi faraldurs. Þá var ýmislegt sem var í undirbúningi sem kom fyrr í notkun. App Íslandsbanka hefur til dæmis rokið upp í notkun og vex dag frá degi samhliða því að heimsóknir fólks í útibúið halda áfram að fækka. Það kemur aðallega til okkar til að sækja ráðgjöf í lánamálum og fleiru, bæði einstaklingar og stofnendur fyrirtækja. Það þekktist varla lengur að fólk komi í bankann til að greiða reikninga, það gerir það í appinu eða heimabankanum í tölvunni,“ segir Sighvatur og bætir við að sem dæmi um nýjungar í tækni séu róbótar en Íslandsbanki er með nokkra slíka sem sinna bakvinnu, símsvörun og skilaboðum og fleiru. „Það er nokkuð magnað. Aðalróbótinn okkar heitir Fróði og er ansi fróður,“ segir útibússtjórinn.

Margir vilja vinna heima

Aðspurður um aðstæður starfsfólks í heimsfaraldri segir Sighvatur að þar hafi líka orðið mikil breyting sem hafi komið hraðar inn en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Hann segir að margir nýti sér nú að vinna hluta af starfstíma sínum heima við, til dæmis einn dag í viku.

„Sumum hentar ágætlega að vinna heima á meðan það hentar ekki eins vel hjá öðrum. Þetta er samt þróun sem fór af stað í kófinu, mun án efa halda áfram og er jákvæð á marga vegu, til dæmis í færri kolefnissporum,“ segir Sighvatur.

Á morgunverðarfundinum kynnti Gunnar Egill Sigurðsson hjá Samkaupum hf. hvernig fyrirtækið fór í gegnum gríðarmikla byltingu í netverslun og stafrænni þróun í heimsfaraldri. Þeir sem nýta sér netverslun hefur fjölgað mikið en fyrstu mánuði faraldurs varð sprenging í netverslun hjá Nettó.



Frá morgunverðarfundi Íslandsbanka í Hljómahöllinni.